Þyrluslys fyrir utan heimavöll Leicester

Þyrlan á King Power-vellinum.
Þyrlan á King Power-vellinum. AFP

Þyrla í eigu Vichais Srivaddhanaprabha, eiganda enska úrvalsdeildarfélagsins Leicester City, hrapaði fyrir utan völl félagsins, King Power-völlinn, eftir 1:1-jafntefli liðsins við West Ham í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. 

Ekki er enn vitað hverjir voru um borð í þyrlunni eða um slys á fólki. „Við erum að vinna í þessu fyrir utan King Power-völlinn,“ sagði í yfirlýsingu sem lögreglan í Leicester sendi frá sér í kvöld.

Lögregluþjónar fyrir utan King Power-völlinn.
Lögregluþjónar fyrir utan King Power-völlinn. AFP

Fyrstu myndir af vettvangi sýna eldhaf á bílastæðinu fyrir utan völlinn. „Aðeins nokkrum sekúndum eftir flugtak bilar eitthvað aftan í þyrlunni og hún missir stjórn á sér og lendir á bílastæðinu, rétt hjá vellinum," sagði vitni í samtali við Sky fréttastofuna um málið. 

Óstaðfestar heimildir herma að Vichai Srivaddhanaprabha hafi verið um borð í þyrlunni. Ekki er vitað hvort einhver komst lífs af úr slysinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert