Ofdekraðir og skortir meiri þroska

Marcus Rashford sóknarmaður Manchester United.
Marcus Rashford sóknarmaður Manchester United. AFP

José Mourinho knattspyrnustjóri Manchester United segir að ungu leikmennirnir í sínu liði séu vissulega góðir fótboltamenn en þá skorti meiri þroska ef þeir ætli sér að ná alla leið á toppinn. Þetta sé í heildina vandamál með hina nýju kynslóð knattspyrnumanna.

Mourinho sagði þetta í viðtali á spænsku sjónvarpsstöðinni Univision og viðtalið tók Hristo Stoichkov, fyrrverandi stjarna búlgalskrar knattspyrnu og leikmaður Barcelona, en þeir störfuðu einmitt saman hjá Katalóníufélaginu á síðasta áratug 20. aldarinnar.

Til umræðu voru Anthony Martial, Luke Shaw, Marcus Rashford og Jesse Lingard sem Mourinho telur alla gríðarlega efnilega leikmenn en þeir þurfi að gera meira til að ná lengra.

„Þá skortir þroska. Líttu á Luke Shaw sem dæmi. Þegar ég kom hingað fyrir tveimur árum þá vissi hann ekki hvað samkeppni væri. Gríðarlega efnilegur en hann kann ekki að berjast fyrir sínu. Þegar við tölum um Luke Shaw, Martial, Lingard og Rashford, þá erum við að tala um stráka með gríðarlega hæfileika en þá vantar enn - ég á ekki rétta orðið yfir það en þú myndir segja hugrekki. Þetta vantar þá," sagði Mourinho við Stoichkov.

Luke Shaw, Jesse Lingard og Anthony Martial eftir leik Manchester …
Luke Shaw, Jesse Lingard og Anthony Martial eftir leik Manchester United í Meistaradeild Evrópu. Eru þeir ofdekraðir? AFP

„Bandaríkjamenn myndu kalla þetta ofdekur, eða ofdekraða krakka. Börnin okkar eru miklu meira dekruð en við vorum af okkar foreldrum. Við vorum þroskaðri og tilbúnari. Ég tel að í dag séu krakkarnir með öðruvísi einkalíf en við áttum og umhverfi leikmannanna í dag má kalla sama nafni og við notuðum í Barcelona - innra umhverfi.

Þegar talað var um umhverfið í Barcelona, var það meira á heimsvísu í tengslum við félagið. Þegar ég nota orðið umhverfi á ég frekar við umhverfi leikmannsins, um fólkið sem stendur næst leikmanninum, fólkið sem verndar hann of mikið, sýnir þeim of miklar tilfinningar og afsakar þá of mikið. Ef alltaf er verið að finna afsakanir þá þroskastu hægar," sagði Mourinho í viðtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert