Verðskulduðum þessi þrjú stig

Aron Einar skoraði fyrra mark sinna manna í kvöld.
Aron Einar skoraði fyrra mark sinna manna í kvöld. Ljósmynd/Cardiff

„Það er alltaf gott að vinna á heimavelli,“ sagði Aron Einar Gunnarsson í viðtali við BBC eftir sigurinn sæta gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Cardiff fagnaði 2:1 sigri eftir að hafa lent undir og skoraði Aron Einar fyrra mark sinna manna á glæsilegan hátt. Annað mark hans í ensku úrvalsdeildinni en hann skoraði fyrsta mark sitt á móti Manchester City í ágúst 2013.

„Fyrri hálfleikurinn var ekki nógu góður af okkar hálfu en í þeim síðari mættu við baráttuglaðir til leiks og við verðskulduðum þessi þrjú stig,“ sagði landsliðsfyrirliðinn, sem átti góðan leik á miðjunni og er Cardiff-liðinu gríðarlega mikilvægur.

Sigurinn lyfti Cardiff úr fallsæti og er liðið með 11 stig í 15. sæti deildarinnar. Næsti leikur Cardiff er strax á þriðjudaginn en þá sækir liðið West Ham heim.

Aron baðst afsökunar

„Ég er virkilega stoltur af þeim í kvöld. Við vorum verðskuldað undir eftir fyrri hálfleikinn en í þeim síðari vorum við sterkari og stjórnuðum leiknum. Aron vissi upp á sig sökina í marki Wolves. Hann baðst afsökunar og bætti fyrir mistök sín,“ sagði Neil Warnock knattspyrnustjóri Cardiff sem fékk svo sannarlega góða afmælisgjöf frá lærisveinum sínum en hann heldur upp á 70 ára afmæli sitt á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert