Bætir Liverpool sinn besta árangur?

Gylfi Þór Sigurðsson hefur skorað 4 mörk í síðustu 5 …
Gylfi Þór Sigurðsson hefur skorað 4 mörk í síðustu 5 heimaleikjum Everton. Verður hann á skotskónum í kvöld? AFP

Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson verða báðir í eldlínunni í kvöld en þá lýkur 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar sem hófst í gærkvöld.

Everton tekur á móti Newcastle á Goodison Park og Burnley fær Liverpool í heimssókn á Turf Moor.

Everton hefur haft gott tak á Newcastle en liðið hefur unnið sjö af síðustu átta viðureignum liðanna. Gylfi Þór hefur skorað fjögur mörk í síðustu fimm heimaleikjum Everton og ekki er ólíklegt að hann verði á skotskónum í kvöld en Gylfi hefur skorað 6 mörk í deildinni á tímabilinu.

Jóhanns Bergs og félaga í Burnley bíður erfitt verkefni en Liverpool er ósigrað í fyrstu 14 leikjunum í deildinni á tímabilinu. Burnley hefur aðeins unnið einn af 11 deildarleikjum liðanna og hann leit dagsins ljós fyrir 44 árum síðan. Burnley hefur gengið afar illa síðustu vikurnar en liðið hefur ekki náð að vinna í síðustu sjö leikjum sínum. Þá er Burnley með verstan árangur allra liða á heimavelli en liðið hefur aðeins fengið fjögur stig úr sex heimaleikjum sínum.

Takist Liverpool að vinna í kvöld nær liðið sínum besta árangri eftir 15 leiki í efstu deild frá upphafi. Tímabilin 1978-79 og 1990-91 vann Liverpool 12 af fyrstu 15 leikjum sínum en ef liðið vinnur í kvöld verður það 13. sigur liðsins í deildinni á tímabilinu.

Leikir kvöldsins:

19.45 Burnley - Liverpool
19.45 Everton - Newcastle
19.45 Fulham - Leicester
19.45 Wolves - Chelsea
20.00 Manchester United - Arsenal
20.00 Tottenham - Southampton

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert