Mikið undir á Anfield annað kvöld

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Ef allt fer á versta veg hjá Liverpool annað kvöld þá lýkur liðið þátttöku sinni í Evrópukeppninni þetta tímabilið.

Liverpool tekur á móti Napoli í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar annað kvöld en þrjú lið berjast um tvö efstu sætin.

Napoli er í toppsætinu með 9 stig, Paris SG er með 8, Liverpool 6 og Rauða stjarnan rekur lestina með 4 stig.

Fari svo að Liverpool tapi fyrir Napoli og Rauða stjarnan vinni sigur á móti Paris SG á heimavelli endar Liverpool í botnsætinu og kemst þar með ekki í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar. Það myndi þýða tekjutap upp á 114 milljónir punda að því er fram kemur í enska blaðinu Liverpool Echo. Sú upphæð jafngildir 17,8 milljörðum íslenskra króna.

Það er því mikið undir hjá Liverpool en liðinu dugar að vinna 1:0 sigur gegn Napoli til að tryggja sér farseðilinn í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar. Skori Napoli á Anfield þarf Liverpool að vinna leikinn með tveggja marka mun.

Leikmenn Liverpool mæta til leiks annað kvöld með sjálfstraustið í botni en liðið skaust á toppinn í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn og er eina taplausa liðið í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert