Valencia hugar að brottför

Antonio Valencia.
Antonio Valencia. AFP

Antonio Valencia, fyrirliði Manchester United, er opinn fyrir því að yfirgefa félagið í janúar en hann telur hæpið að vinna til baka traust frá knattspyrnustjóranum José Mourinho.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að umboðsmaður Valencia hafi verið að skoða þá möguleika sem eru í boði fyrir bakvörðinn en West Ham og félög á Spáni hafa sýnt áhuga á að fá Ekvadorann til liðs við sig.

Valencia féll í ónáð hjá Mourinho eftir markalaust jafntefli United á móti Valencia í Meistaradeildinni í október en eftir þann leik tók hann undir það í færslu á Instagram að Mourinho yrði látinn fara. Valencia baðst í kjölfarið afsökunar en hefur nánast verið í frosti hjá Mourinho frá þeim tíma.

Valencia hefur verið í herbúðum Manchester United frá árinu 2009 og hefur verið fyrirliði liðsins undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert