„Er eins og spagetti bolognese“

José Mourinho þakkar Jürgen Klopp fyrir leikinn á Anfield í …
José Mourinho þakkar Jürgen Klopp fyrir leikinn á Anfield í gær. AFP

Eftir 17 umferðir í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu er Manchester United með 26 stig og það þarf að fara ansi langt aftur í tímann til að sjá jafn slaka uppskeru hjá Manchester-liðinu.

Stigasöfnum Manchester United eftir 17 umferðir í efstu deild hefur ekki verið jafn rýr síðan tímabilið 1990-91 en þá var liðið líka með 26 stig eftir 17 umferðir.

Það þarf engan sérfræðing til að sjá að varnarleikur United er í molum. Liðið hefur fengið á sig 29 mörk, einu marki meira en allt tímabilið í fyrra. United hefur ekki fengið á sig fleiri mörk eftir 17 leiki í efstu deild síðan tímabilið 1962-63.

Gary Neville, fyrrverandi leikmaður Manchester United, var ekki par sáttur við spilamennsku sinna manna en í viðtali við Sky Sports sagði hann:

„Þegar þú horfir á lið Manchester United þá er það eins og spagetti bolognese. Leikmenn liðsins eru út um allt og skipulagið er ekkert. Enginn af miðjumönnum United getur sent boltann og liðið var hræðilegt,“ sagði Neville.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert