Meistarabragur á Liverpool

Liverpool hélt uppteknum hætti er liðið rótburstaði Arsenal, 5:1, á Anfield í stórleik 20. umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Liverpool er nú með níu stiga forystu á toppi deildarinnar en Englandsmeistarar Manchester City eiga leik til góða.

Það voru að vísu gestirnir frá Lundúnum sem brutu ísinn þökk sé mistökum heimamanna. Liverpool tapaði þá boltanum á hættulegum stað áður en Alex Iwobi gaf fyrir markið og Ainsley Maitland-Niles skoraði á fjærstönginni sitt fyrsta mark fyrir Arsenal á 11. mínútu.

Það var þó í fyrsta og síðasta sinn sem gestirnir höfðu tilefni til að brosa í Bítlaborginni í kvöld. Það tók heimamenn aðeins þrjár mínútur að jafna metin en það gerði Roberto Firmino með skoti af stuttu færi í opið mark eftir vandræðagang í vörn Arsenal og tveimur mínútum eftir það var Liverpool komið í forystu. Firmino var þá aftur á ferðinni er hann fékk boltann utan vítateigs Arsenal, lék á tvo varnarmenn og skoraði svo með hnitmiðuðu skoti fram hjá Bernd Leno í markinu.

Staðan varð svo 3:1 á 32. mínútu eftir að Mohamed Salah gaf fyrir markið og Sadio Mané skoraði með glæsilegu skoti upp í þaknetið og rétt fyrir hálfleik komst Egyptinn sjálfur á blað. Hann fiskaði þá fyrst vítaspyrnu þegar Sokratis braut á honum inni í vítateig og skoraði svo úr henni sjálfur.

Liverpool fékk svo aðra vítaspyrnu á 65. mínútu sem var heldur ódýrari en Sead Kolasinac virtist ýta lítillega við Dejan Lovren inn í teig. Það breytir því ekki að víti var dæmt og Firmino fullkomnaði þar með þrennu sína og glæstan stórsigur Liverpool.

Liverpool 5:1 Arsenal opna loka
90. mín. Þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert