„Klopp er einstakur“

Virgil van Dijk hefur verið einn besti leikmaður Liverpool á …
Virgil van Dijk hefur verið einn besti leikmaður Liverpool á þessari leiktíð. AFP

Virgil van Dijk, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, fór allfögrum orðum um knattspyrnustjóra sinn Jürgen Klopp á dögunum. Van Dijk hefur verið einn besti leikmaður Liverpool á þessari leiktíð en enska félagið borgaði Southampton 75 milljónir punda fyrir miðvörðinn í janúar á síðasta ári og gerði Hollendinginn þar með að dýrasta varnarmanni heims.

„Ég man að ég ræddi verðmiðann við Klopp, fyrst þegar að ég kom til félagsins,“ sagði van Dijk á blaðamannafundi á dögunum. „Það eina sem hann sagði við mig var að allir góðir hlutir kosta peninga. Ég var mjög ánægður að heyra þetta og þessi ummæli sýna í raun bara hvaða mann hann hefur að geyma. Hann er ein stærsta ástæða þess að ég ákvað að koma til Liverpool.“

„Klopp er einstakur og það er eitthvað við hann sem fær hann til að standa upp úr. Hann er frábær stjóri sem hugsar vel um leikmennina sína. Hann lætur manni alltaf líða vel, sama hvað, og hann er alltaf glaður þegar hann hittir okkur á morgnana. Hann er duglegur að faðma okkur og það hjálpar eins fáránlegt og það hljómar. Að sama skapi getur hann látið mann heyra það duglega fyrir framan allan leikmannahópinn ef hann er ósáttur.“

„Hann hefur sýnt okkur það margoft að honum er annt um okkur og þess vegna getur hann krafist meira en venjulega frá okkur. Ég er mjög ánægður að hafa ákveðið að semja við Liverpool á sínum tíma og vonandi getum við haldið áfram að vinna leiki eins og við erum búnir að vera gera á þessari leiktíð,“ sagði van Dijk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert