Síðasta kveðjan frá Sala?

Argentínski fjölmiðillinn Channel 5 News hefur birt hljóðupptöku sem er sögð vera frá argentínska knattspyrnumanninum Emiliano Sala þegar hann var að leggja upp í flugferðina örlagaríku frá Nantes til Cardiff í fyrrakvöld.

Ekkert hefur spurst til lítillar flugvélar þar sem aðeins Sala og flugmaðurinn voru um borð og átti að lenda í Cardiff síðar um kvöldið. Samband rofnaði við hana skammt frá Ermarsundseynni Aldersey og mikil leit á svæðinu í gær bar engan árangur. Líkurnar á að þeir hefðu komist lífs af voru í gærkvöld metnar ákaflega litlar, en leit var frestað til morguns eftir að myrkur skall á.

Sala, sem er fæddur árið 1990 og lék með Nantes frá 2015, var um helgina seldur til Cardiff fyrir 15 milljónir punda og er dýrasti leikmaðurinn í sögu velska félagsins.

Sala er sagður hafa sagt eftirfarandi í hópspjalli á WhatsApp rétt áður en vélin fór í loftið:

„Hæ bræður, hvernig gengur? Bróðir, ég er alveg búinn. Ég var í Nantes í endalausum verkefnum, endalausum, endalausum, endalausum. En strákar, nú er ég kominn upp í flugvél sem virðist vera að hrynja í sundur. Og nú er ég á leið til Cardiff, ótrúlegt að síðdegis á morgun verði ég á æfingu með nýju liðsfélögunum mínum. Sjáum til hvað gerist.

Hvernig gengur ykkur, bræður? Er allt í lagi? Ef þið hafið ekkert heyrt frá mér eftir hálfan annan tíma... ég veit ekki hvort nokkur verður sendur til að leita að mér því þeir munu ekki finna neitt. En, þið vitið...

Pabbi, ég er svo hræddur!"

Stuðningsmenn Nantes hafa fjölmennt í miðborginni og beðið fregna af …
Stuðningsmenn Nantes hafa fjölmennt í miðborginni og beðið fregna af Emiliano Sala sem var mesti markaskorari liðsins undanfarin þrjú ár. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert