Útskýra muninn á Mourinho og Solskjær

Ander Herrera fagnar með liðsfélögum sínum eftir að hafa skorað …
Ander Herrera fagnar með liðsfélögum sínum eftir að hafa skorað gegn Chelsea í gærkvöld. AFP

Manchester United hefur gengið flest í hag eftir að Ole Gunnar Solskjær tók við af José Mourinho sem knattspyrnustjóri félagsins.

Tap gegn PSG í Meistaradeild Evrópu er það eina sem varpar skugga á gengi United-liðsins sem nú síðast sló Chelsea út í ensku bikarkeppninni í gærkvöld. Eftir sigurinn voru þeir Ander Herrera og Alexis Sánchez spurðir út í hvað hefði breyst með stjóraskiptunum. Herrera hefur sprungið út undir stjórn Solskjær en Sánchez virðist enn eiga erfitt uppdráttar líkt og undir stjórn Mourinho:

„Mourinho er einn besti stjóri heims að því leyti hvernig hann þjálfar, hvernig hann greinir myndbönd og hvernig hann gerir hlutina. En innan hópsins voru menn orðnir óvissir um hvenær þeir væru í liðinu og hvenær ekki. Stundum spilaði ég ekki, svo spilaði ég, svo spilaði ég ekki og sem leikmaður þá missir maður sjálfstraust,“ sagði Sánchez við BBC, og bætti við:

„Ég hef spilað fótbolta síðan ég var 5 ára og ef að boltinn er tekinn frá mér þá missi ég gleðina.“

Herrera skoraði fyrra mark United í gær og hefur eins og fyrr segir notið sín afar vel undir stjórn Solskjær:

„Mourinho gaf mér fullt af hlutum sem ég verð alltaf þakklátur fyrir og Ole kom með brosin. Hann nær því besta út úr hæfileikaríkustu mönnunum. Hann ræðir við okkur í einrúmi, hvern og einn. Hann veit um hvað félagið snýst og hann minnir fólk á Ferguson, og hann hefur þegar tekið stórt skref. Vonandi gengur þetta svona áfram um langan tíma því hann er líka frábær náungi,“ sagði Herrera.

Alexis Sánchez segir það hafa dregið úr sjálfstraustinu að vita …
Alexis Sánchez segir það hafa dregið úr sjálfstraustinu að vita aldrei hvort hann fengi að spila eða ekki. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert