„Yrði martröð að sjá Liverpool vinna“

Wayne Rooney vonar að Manchester City hafi betur gegn Liverpool …
Wayne Rooney vonar að Manchester City hafi betur gegn Liverpool í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn. AFP

Wayne Rooney, fyrrverandi fyrirliði Manchester United og enska landsliðsins í knattspyrnu, hefur lítinn áhuga á því að sjá Liverpool vinna ensku úrvalsdeildina í vor. Liverpool er í harðri toppbaráttu við Manchester City um enska úrvalsdeildartitilinn en Liverpool hefur tveggja stiga forskot á City á toppi deildarinnar þegar sjö umferðir eru eftir af tímabilinu en City á leik til góða.

Rooney er uppalinn hjá Everton og er því lítt hrifinn af Liverpool en ást hans á Liverpool jókst ekki við það að spila með Manchester United í þrettán ár. „Það er mjög gaman að upplifa þessa baráttu um enska meistaratitilinn í öðru landi og sem algjör áhorfandi,“ sagði Rooney í samtali við Sky Sports.

„Ég vona innilega að Manchester City klári þetta og lyfti Englandsmeistaratitlinum í vor. Það yrði algjör martröð fyrir mig persónulega, sem stuðningsmaður Everton, að sjá Liverpool vinna ensku úrvalsdeildina. Liverpool vann Meistaradeildina fyrir 19 árum síðan og þeir eru ennþá að tala um það. Þeir myndu tala um Englandsmeistaratitilinn næstu tíu til fimmtán árin,“ sagði Rooney ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert