Röng ákvörðun að ráða Solskjær

Ole Gunnar Solskjær gengur svekktur af velli með David de …
Ole Gunnar Solskjær gengur svekktur af velli með David de Gea. AFP

Það var röng ákvörðun hjá forráðamönnum Manchester United að ráða Ole Gunnar Solskjær sem framtíðar knattspyrnustjóra liðsins. Þetta segir Jermaine Jenas, fyrrverandi knattspyrnumaður og núverandi sjónvarpsmaður á BBC. 

Solskjær fór gríðarlega vel af stað með United og stýrði liðinu til sigurs í tíu af fyrstu ellefu leikjum sínum. Var honum verðlaunað með þriggja ára samning, en ráðning hans var fyrst tímabundin. 

Síðan hann skrifaði undir samninginn hefur lítið gengið og United tapað fimm af síðustu sjö leikjum sínum. „Þetta var ekki úthugsað hjá þeim, heldur einhver tilfinning. Þetta var ekki besta lausnin fyrir framtíð Manchester United," sagði Jenas á BBC. 

„Eitt af því sem félagið þarf að gera er að hætta að reyna að gera það sem Sir Alex Ferguson gerði og fara sína eigin leið og hugsa til framtíðar. Pep Guardiola kom ekki til Manchester City og vildi vinna deildina eins og Mancini, hann hefur farið sínar eigin leiðir," bætti Jenas við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert