Brighton náði í stig í fallbaráttunni

Brighton og Wolves gerðu markalaust jafntefli.
Brighton og Wolves gerðu markalaust jafntefli. AFP

Brighton náði í mikilvægt stig í baráttunni við Aron Einar Gunnarsson og félaga í Cardiff um að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Liðið gerði þá markalaust jafntefli við Wolves á útivelli. Brighton er nú með 34 stig, þremur stigum meira en Cardiff, þegar bæði lið eiga fjóra leiki eftir. 

West Ham og Leicester gerðu dramatískt jafntefli á London-vellinum, 2:2. Michail Antonio kom West Ham yfir á 37. mínútu en Jamie Vardy jafnaði á 67. mínútu. Lucas Pérez kom West Ham aftur yfir átta mínútum fyrir leikslok, en Harvey Barnes jafnaði í uppbótartíma og þar við sat. 

Watford, sem er komið í úrslit enska bikarsins, vann 2:1-sigur á föllnu liði Huddersfield. Gerard Deulofeu skoraði bæði mörk Watford í sitt hvorum hálfleiknum, áður en karlan Grant minnkaði muninn fyrir Huddersfield í uppbótartíma. 

Fulham, sem er einnig fallið, vann sinn annan leik í röð. Aleksandar Mitrovic skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 53. mínútu í 1:0-útisigri á Bournemouth. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert