Þurfa að gera sjálfum sér greiða

Virgil van Dijk.
Virgil van Dijk. AFP

Virgi van Dijk miðvörðurinn frábæri í liði Liverpool óskar eftir því að leikmenn Manchester United geri sjálfum sér greiða þegar þeir taka á móti Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á miðvikudagskvöld.

Liverpool og Manchester City eru í æsilegri baráttu um Englandsmeistaratitilinn. Liverpool trónir á toppi deildarinnar með 88 stig og á þrjá leiki eftir en City hefur 86 stig en á fjóra leiki eftir. Stuðningsmenn Liverpool verða því á bandi United í leiknum gegn City á miðvikudaginn.

Þegar Van Dijk var spurður hvort United geti gert Liverpool greiða í titilbaráttunni sagði Hollendingurinn;

„Þeir þurfa að gera sjálfum sér greiða. Everton er ekki auðvelt heim að sækja en 4:0 var stórsigur. Við höfum engin áhrif á þennan leik hjá United og City. United er enn að berjast um að ná sæti í meistaradeildinni og þarf á góðum úrslitum að halda,“ sagði Van Dijk en Manchester United steinlá fyrir góðu liði Everton á Goodison Park í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert