Sá besti fyrir utan þau sex efstu

Gylfi Þór fagnar marki sínu gegn United.
Gylfi Þór fagnar marki sínu gegn United. Ljósmynd/Everton

Dean Saunders, fyrrverandi leikmaður Aston Villa og Liverpool og nú sparkspekingur á Englandi, segir að Gylfi Þór Sigurðsson sé besti leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni fyrir utan sex efstu liðin.

Gylfi Þór fór á kostum í 4:0 sigri Everton gegn Manchester United þar sem hann skoraði eitt mark og lagði upp annað.

„Ef þú spyrð mig hver sé besti leikmaðurinn fyrir utan sex efstu liðin þá segi ég Gylfi Sigurðsson. Einhverjir segja Wilfried Zaha en ég segi Sigurðsson. Hann er búinn að skora 14 mörk á tímabilinu og gefa nokkrar stoðsendingar,“ sagði Saunders við talkSport.

„Hann hefur verið ljósi punkturinn fyrir Everton allt tímabilið og er sá eini sem hefur haldið formi allt tímabilið. Richarlison hefur átt góða spretti sem og Bernard en Gylfi hefur verið góður alla leiktíðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert