Chelsea mætir Arsenal í úrslitum

Eden Hazard fagnar marki sínu í vítakeppninni ásamt samherjum.
Eden Hazard fagnar marki sínu í vítakeppninni ásamt samherjum. AFP

Rétt eins og í Meistaradeild Evrópu karla í knattspyrnu verða tvö ensk lið í úrslitum í Evrópudeild karla í knattspyrnu. Chelsea mætir Arsenal eftir að hafa slegið út Eintracht Frankfurt í undanúrslitum. 

Belginn Eden Hazard tryggði Chelsea sæti í úrslitum þegar hann skoraði úr síðustu vítaspyrnu liðsins í vítaspyrnukeppninni sem gripið var til eftir framlengdan leik í London í kvöld. 

Liðin gerðu 1:1 jafntefli í venjulegum leiktíma rétt eins og gerðist í fyrri leiknum í Frankfurt. Ruben Loftus-Cheek skoraði á 28. mínútu og Luka Jovic jafnaði á 49. mínútu. 

Vítaspyrnukeppnin: 

Ross Barkley, Jorginho, Davide Zapparcosta og Hazard skoruðu fyrir Chelsea í vítakeppninni en Kevin Trapp markvörður Frankfurt varði frá Cesar Azpilicueta. 

Sebastien Haller, Luka Jovic og Jonathan de Guzman skoruðu úr fyrstu þremur spyrnum Frankfurt en Kepa varði frá Martin Hinteregger og Goncalo Paciencia. 

Tvö ensk lið hafa áður mæst í úrslitum keppninnar en það gerðist til að mynda strax fyrsta árið þegar UEFA Cup var ýtt úr vör 1971-72. Þá sigraði Tottenham lið Úlfanna í úrslitum en í UEFA bikarnum voru tveir úrslitaleikir, heima og að heiman. 
Eden Hazard í leiknum í kvöld.
Eden Hazard í leiknum í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert