Guardiola viss um að Kompany snúi aftur

Vincent Kompany kveður Manchester City eftir gríðarlega velgengni með liðinu.
Vincent Kompany kveður Manchester City eftir gríðarlega velgengni með liðinu. AFP

Vincent Kompany segist hafa vitað það um leið og hann skoraði markið stórglæsilega gegn Leicester að hann myndi yfirgefa Manchester City eftir keppnistímabilið sem lauk nú um helgina hjá liðinu.

Kompany skoraði mikilvægt sigurmark gegn Leicester 6. maí, með sannkölluðum þrumufleyg. Eftir að hafa fagnað bikarmeistaratitlinum með City um helgina, og um leið ensku þrennunni því City vann alla stóru titlana á Englandi á leiktíðinni, var svo tilkynnt að Belginn myndi hætta hjá liðinu og taka við sem spilandi stjóri hjá uppeldisfélagi sínu Anderlecht.

„Um leið og boltinn fór efst í hornið gegn Leicester þá vissi ég að þetta væri komið gott hjá mér. Ég gat ekki endað betur,“ sagði Kompany sem kveður sem fyrirliði City eftir að hafa unnið fjóra Englandsmeistaratitla, tvo bikarmeistaratitla og fjóra deildabikarmeistaratitla með félaginu.

„Ég hef gefið allt sem ég get fyrir þetta félag. Ég get ekki lýst því hversu stoltur ég er,“ sagði Kompany.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, er viss um að Kompany snúi aftur til félagsins síðar: „Ég held að við munum sakna hans mikið. Ég mun sakna hans en hann mun sjá okkur aftur því hann mun snúa aftur fyrr eða síðar,“ sagði Guardiola.

„Þetta er besta leiðin til þess að kveðja, eftir stórkostlegt tímabil okkar. Hann var sannur fyrirliði og hjálpaði okkur mikið. Við munum sýna honum hve mikið við elskum hann,“ sagði Guardiola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert