Real Madrid ekki með húmor fyrir gríni Pochettinos

Það er alltaf stutt í glensið hjá Mauricio Pochettino.
Það er alltaf stutt í glensið hjá Mauricio Pochettino. AFP

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, reyndi að slá á létta strengi í viðtali við spænska útvarpsstöð en brandari hans leiddi til þess að Real Madrid ákvað að senda frá sér yfirlýsingu.

Pochettino, sem orðaður hefur verið við stjórastarfið hjá Real Madrid í gegnum tíðina, heldur brátt með lærisveina sína í Tottenham til Madridar þar sem liðið mætir Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Leikurinn fer fram á Estadio Metropolitano, heimavelli Atlético Madrid, hinn 1. júní. Pochettino var í viðtali við El Partidazo de Cope spurður út í dagskrána hjá Tottenham í Madrid:

„Fyrir úrslitaleikinn æfum við á Valdebebas [æfingasvæði Real Madrid] og gistum á nálægu hóteli. Ég spurði Florentino [Perez, forseta Real] hvort við mættum sofa í íþróttamiðstöðinni en hann sagði að ég mætti það ekki fyrr en ég yrði stjóri Real Madrid,“ sagði Pochettino, að því er virðist í hreinni viðleitni til þess að vera fyndinn. Forráðamönnum Real Madrid var hins vegar ekki hlátur í huga og í yfirlýsingu félagsins, sem réð Zinedine Zidane sem knattspyrnustjóra að nýju í mars, segir meðal annars:

„Real Madrid vill að það komi skýrt fram að það eru helber ósannindi að nokkur svona fyrirspurn hafi verið borin fram.“ Þar segir einnig að Real Madrid hafi gert hvað sem það gat til að uppfylla allar beiðnir UEFA, Tottenham og Liverpool í aðdraganda leiksins, og að aðeins hafi verið beðið um aðgang að æfingasvæði Real Madrid og búningsklefum. Aldrei hafi verið beðið um gistingu á svæði Real Madrid.

Pochettino hefur áður gefið í skyn að hann gæti yfirgefið Tottenham vinni félagið Evrópumeistaratitilinn. Hann hefur einnig sagt að það væri „vitleysa“ að vera áfram hjá félaginu ef það breytti ekki sinni rekstrarstefnu, en Tottenham hefur ekki keypt leikmann síðan í janúar 2018. Í viðtalinu sagði Pochettino: „Ég tek enga ákvörðun um framtíð mína fyrr en eftir úrslitaleikinn. Það er mikilvægt að vita hver framtíðarstefna félagsins er. Real Madrid? Ég er ekki með nein markmið ef ég verð ekki áfram hjá Tottenham. Fótboltinn fer með mann þangað sem maður á skilið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert