Coutinho fer ekki til United

Philippe Coutinho er ekki á leið á Old Trafford.
Philippe Coutinho er ekki á leið á Old Trafford. AFP

Philippe Coutinho, leikmaður spænska knattspyrnufélagsins Barcelona, mun ekki ganga til liðs við Manchester United í sumar en það er Sky Sports sem greinir frá þessu. Coutinho hefur verið orðaður við endurkomu til Englands eftir misheppnaða dvöl á Spáni og er United sagt hafa mikinn áhuga á leikmanninum.

Coutinho sjálfur útilokar hins vegar að fara til United þar sem hann vill alls ekki reita stuðningsmenn Liverpool til frekari reiði en Coutinho spilaði á Anfield í fimm ár þar sem hann sló í gegn áður en Barcelona keypti hann í janúar 2018 fyrir 140 milljónir punda. Coutinho hefur alls ekki náð sér á strik á Spáni og er sagður vera kominn á sölulista hjá Barcelona.

Franska stórliðið PSG hefur áhuga á leikmanninum og er Coutinho sjálfur sagður spenntur fyrir því að reyna fyrir sér í París en hann og Neymar, stórstjarna PSG, eru miklir vinir. Þá er Chelsea einnig sagt áhugasamt um leikmanninn en Chelsea er í félagaskiptabanni og má því ekki kaupa leikmenn í næstu tveimur félagaskiptagluggum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert