Liverpool að kaupa leikmann Southampton?

Matt Targett er sterklega orðaður við Liverpool þessa dagana.
Matt Targett er sterklega orðaður við Liverpool þessa dagana. AFP

Enskir miðlar greina frá því í dag að Matt Targett, vinstri bakvörður enska knattspyrnufélagsins Southampton, sé á óskalista Liverpool. Targett er hugsaður sem varaskeifa fyrir Andy Robertson, vinstri bakvörð Liverpool, en Alberto Moreno mun yfirgefa Liverpool á frjálsri sölu þegar samningur hans rennur út um mánaðamótin.

Targett, sem er 23 ára, kom við sögu í 21 leik með Southampton á síðustu leiktíð en hann var á láni hjá Fulham tímabilið 2017-2018. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, leitar nú að vinstri bakverði til þess að vera til taks ef Robertson meiðist en James Milner er eini leikmaður Liverpool sem getur leyst Skotann af hólmi eins og staðan er í dag.

Aston Villa hefur einnig áhuga á Targett en enskir miðlar greina frá því að Liverpool hafi nú þegar sett sig í samband við Southampton vegna leikmannsins. Liverpool hefur verið duglegt að kaupa leikmenn af Southampton í gegnum tíðina en þar ber eflaust hæst að nefna kaup Liverpool á Virgil van Dijk í janúar 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert