Rodri á leið til Manchester City

Rodri hefur beðið um sölu frá spænska knattspyrnufélaginu Atlético Madrid.
Rodri hefur beðið um sölu frá spænska knattspyrnufélaginu Atlético Madrid. AFP

Rodri, miðjumaður spænska knattspyrnufélagsins Atlético Madrid, hefur tjáð spænska félaginu að hann vilji fara í sumar en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Rodri hefur verið sterklega orðaður við Manchester City í allt sumar og er talið næsta víst að leikmaðurinn muni skrifa undir í Manchester á næstu dögum.

City þarf að borga rúmlega 60 milljónir punda fyrir þennan öfluga miðjumann sem er einungis 22 ára gamall. Bayern München hefur einnig fylgst náið með leikmanninum í gegnum tíðina og er þýska félagið tilbúið að borga uppsett verð fyrir leikmanninn en Rodri sjálfur vill komast til Englands og spila fyrir Pep Guardiola.

Rodri kom við sögu í 34 leikjum með Atlético Madrid í spænsku 1. deildinni á síðustu leiktíð þar sem hann skoraði 3 mörk og lagði upp 1. Hann spilar sem varnarsinnaður miðjumaður og á að baki 6 landsleiki fyrir spænska landsliðið en hann spilaði sinn fyrsta landsleik árið 2018 þegar hann kom inn á sem varamaður gegn Þýskalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert