Slógu félagsmetið í fjórða sinn í sumar

Oli McBurnie, dýrasti leikmaður Sheffield United, með treyju félagsins.
Oli McBurnie, dýrasti leikmaður Sheffield United, með treyju félagsins. Ljósmynd/@SheffieldUnited

Sheffield United er nýliði í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á komandi keppnistímabili og félagið hefur styrkt sig talsvert í sumar. Í dag var félagsmet slegið í fjórða sinn á nokkrum vikum þegar Sheffield United keypti sinn dýrasta leikmann frá upphafi.

Sá heitir Oli McBurnie, 23 ára gamall framherji sem skoraði 24 mörk fyrir B-deildarliðið Swansea City á síðasta tímabili. Fyrir hann greiðir Sheffield United 17,5 milljónir punda og sú upphæð getur farið upp í 20 milljónir punda ef hann nær ákveðnum markmiðum hjá félaginu.

McBurnie er skoskur landsliðsmaður sem lék sinn fyrsta A-landsleik fyrir Skotland á síðasta ári og þeir eru nú orðnir sjö talsins. 

Þar með féll tólf daga gamalt met frá 21. júlí þegar Sheffield United keypti Lys Mousset af Bournemouth fyrir 9,5 milljónir punda.

Alls eru sjö nýir leikmenn komnir til liðsins í sumar og þeirra þekktastur er miðvörðurinn Phil Jagielka, fyrrverandi landsliðsmaður Englands, sem sneri aftur á heimaslóðir eftir að hafa leikið með Everton í tólf ár.

Ravel Morrison kemur frá Östersund í Svíþjóð, Ben Osborn frá Nottingham Forest, Callum Robinson frá Preston og Luke Freeman frá QPR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert