Manchester City vann Samfélagsskjöldinn

Manchester City vann Samfélagsskjöldinn í ár eftir sigur í vítaspyrnukeppni gegn Liverpool á Wembley-leikvanginum í London í dag. City er ríkjandi deildar- og bikarmeistari en Liverpool endaði síðasta tímabil í öðru sæti.

Leikurinn fór fjörlega af stað og voru það meistararnir sem byrjuðu af miklum krafti. Leroy Sané fékk fyrsta færið strax á fjórðu mínútu áður en taka þurfti hann af velli vegna meiðsla aðeins tíu mínútum síðar. Rétt þar áður tók City hins vegar forystuna þegar De Bruyne og David Silva gerðu vel í að búa til færi fyrir Raheem Sterling í markteignum en hann náði að troða boltanum í markið.

City hélt áfram að hafa yfirhöndina í fyrri hálfleiknum en fleiri urðu mörkin ekki fyrir hlé. Það var svo lið Liverpool sem færði sig hressilega upp á skaftið í síðari hálfleik. Virgil van Dijk skaut í þverslá á 57. mínútu og skömmu síðar átti Mohamed Salah skot í stöng. Dauðafæri leiksins kom hinsvegar nokkrum mínútum síðar þegar Raheem Sterling komst einn í gegn en fraus á ögurstundu og rak boltann hreinlega í fangið á Alisson Becker í marki Liverpool.

Yfirburðir Liverpool í síðari hálfleiknum skiluðu sér svo loks á 77. mínútu þegar boltanum var lyft inn í teig úr aukaspyrnu, Van Dijk sendi fyrir markið og Joel Matip skallaði í netið, 1:1. Liverpool var svo nær því að kreista fram sigurmark og bjargaði Kyle Walker meðal annars lipurlega af marklínu með hjólhestaspyrnu eftir skalla Salah að marki.

Það þurfti því að grípa til vítaspyrnukeppni þar sem City nýtti allar fimm spyrnur sínar en Georginio Wijnaldum brenndi af annarri spyrnu Liverpool. Manchester City vann þar með Samfélagsskjöldinn annað árið í röð.

Liverpool 5:6 Man. City opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert