Veit ekki hvort Eriksen fer

Christian Eriksen kom inn á sem varamaður í fyrstu umferð …
Christian Eriksen kom inn á sem varamaður í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. AFP

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, segist ekki vita hvort að danski landsliðsmaðurinn Christian Eriksen verði seldur frá félaginu í sumar.

Tottenham sækir Manchester City heim í stórleik 2. umferðar á morgun kl. 16.30.

Lokað hefur verið fyrir leikmannakaup á Englandi fram til 1. janúar en félögin geta enn selt leikmenn. Eriksen hefur verið orðaður við Real Madrid en félagaskiptaglugginn á Spáni lokast ekki fyrr en 2. september. Pochettino var spurður að því beint út á blaðamannafundi í dag hvort að Eriksen yrði áfram hjá Tottenham eftir sumarið og svaraði: „Ég veit það ekki.“

Eriksen kom inn á sem varamaður og átti stóran þátt í 3:1-sigri Tottenham á Aston Villa síðastliðinn laugardag. Hann á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Tottenham og því gæti þessi 27 ára gamli miðjumaður farið frítt frá félaginu næsta sumar.

„Ég reyni að hjálpa öllum leikmönnunum. Mitt verk er að styðja við þá alla þangað til að þeir ákveða kannski að fara aðra leið á sínum ferli,“ sagði Pochettino.

Tottenham setti félagsmet þegar félagið keypti franska miðjumanninn Tanguy Ndombele frá Lyon í sumar fyrir 53,8 milljónir punda, og hefur einnig fengið argentínska miðjumanninn Giovani Lo Celso að láni frá Real Betis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert