Eins og Watford á síðustu leiktíð

Unai Emery er knattspyrnustjóri Arsenal.
Unai Emery er knattspyrnustjóri Arsenal. AFP

„Þeir þjörmuðu að okkur. Watford spilaði eins og liðið gerði á síðasta ári,” sagði Unai Emery, knattspyrnustjóri Arsenal, við BBC eftir 2:2 jafntefli liðsins gegn botnliði Watford sem kom til baka eftir tveggja marka forskot Arsenal.

„Við vorum yfir í fyrri hálfleik og vissum að við þyrftum að skora þriðja markið. Þeir höfðu hins vegar það sem þurfti til að koma til baka og með stuðningsmönnum sínum gerðu þeir það,” sagði Emery en Watford komst inn í leikinn með slæmum mistökum frá Sokratis í öftustu varnarlínu eftir markspyrnu liðsins er Tom Cleverley minnkaði muninn í 2:1 í síðari hálfleik.

„Við gátum ekki leyst pressuna þeirra í seinni hálfleik. Þeir búa yfir miklum líkamlegum styrk og eru sterkt lið. Þeir refsuðu okkur fyrir mistök okkar,” sagði Emery.

„Þegar þú reynir að komast á milli línanna hjá þeim þá færðu færin. En þeir unnu seinni hálfleikinn. Samantekt mín á leiknum í stuttu máli er: ekki gott stig,” sagði Emery.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert