Dramatískur sigur Leicester

Leicester vann 2:1-sigur á Tottenham og skellti sér í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir fjörugan leik á King Power-leikvanginum í dag.

Heimamenn héldu að þeir væru að komast í forystu eftir 16. mínútur þegar Wilfried Ndidi skóflaði boltanum í netið af stuttu færi eftir darraðardans í vítateig Tottenham en markið var dæmt af eftir að hafa verið skoðað af VAR-tækninni. Myndbandsdómgæslan átti heldur betur eftir að koma við sögu.

Það voru svo gestirnir sem tóku forystuna á 29. mínútu þegar Harry Kane skoraði glæsilegt mark. Hann var þá sloppinn í gegn og kominn í dauðafæri þegar Caglar Söyüncü ýtti við honum. Kane féll í jörðina en skaut að marki um leið og hann skoraði magnað mark, liggjandi í grasinu.

Staðan var 1:0 í hálfleik og gestirnir héldu að þeir væru að gera út um leikinn þegar Serge Aurier kom þeim í tveggja marka forystu á 64. mínútu. Aftur var atvikið skoðað í VAR og aftur var mark dæmt af en í aðdraganda marksins var Son Heung-min talinn rangstæður þó að nær ómögulegt virtist að sjá það í endursýningum. Millimetraspursmál og umdeild ákvörðun.

Örfáum mínútum síðar jöfnuðu heimamenn svo metin, Ricardo Pereira skoraði á fjærstönginni eftir fyrirgjöf frá Jamie Vardy. Það varð svo allt vitlaust á King Power-leikvanginum á 85. mínútu þegar James Maddison þrumaði boltanum í netið utan teigs og tryggði heimamönnum dramatískan, ótrúlegan sigur.

Leicester fer upp í 2. sætið með 11 stig en Manchester City getur hirt sætið af þeim með sigri gegn Watford síðar í dag. Tottenham er í 5. sætinu með átta stig.

Leicester 2:1 Tottenham opna loka
90. mín. Sex mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert