Inter vill fá Giroud

Olivier Giroud.
Olivier Giroud. AFP

Ítalska knattspyrnuliðið Inter er sagt tilbúið að losa franska landsliðsmanninn Olivier Giroud úr prísundinni hjá Chelsea þegar opnað verður fyrir félagaskipti í janúar.

Giroud hefur verið úti í kuldanum hjá Frank Lampard, stjóra Chelsea, sem hefur gefið franska sóknarmanninum fá tækifæri á þessu tímabili.

Ítalska blaðið Gazzetta dello Sport segir að Inter sé reiðubúið að kaupa Giroud frá Chelsea fyrir 6 milljónir punda.

Þó svo að Giroud hafi lítið sem ekkert spilað með Lundúnaliðinu á leiktíðinni hefur Didider Dechamps landsliðsþjálfari Frakka haldið tryggð við hann og Giroud þakkaði traustið með því að skora sigurmarkið gegn Íslendingum í undankeppni EM í síðasta mánuði og skora svo mark Frakka í jafnteflisleiknum gegn Tyrkjum þar á eftir. Giroud er í landsliðshópi Frakka sem undirbýr sig fyrir síðustu tvo leikina í undankeppninni, gegn Moldóvu annað kvöld og Albaníu á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert