United gæti loks klófest Sancho

Jadon Sancho
Jadon Sancho AFP

Jadon Sancho, sóknarmaður Borussia Dortmund, hefur verið einn eftirsóttasti knattspyrnumaður Evrópu undanfarna mánuði og ensku götublöðin færa nú fregnir af því að hann muni loks snúa aftur til Manchester í janúar.

Sancho er uppalinn hjá Englandsmeisturum Manchester City en hann flutti sig yfir til Þýskalands og hefur staðið sig vel í efstu deild þar í landi. Hann er 19 ára gamall og byrjaður að banka á dyrnar hjá enska landsliðinu en hann hefur skorað fjögur mörk fyrir Dortmund á tímabilinu.

Bæði The Mirror og The Sun greina frá því að Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, hafi sagt yfirmönnum sínum að klófesta Sancho í janúar en hann er metinn á um 80 milljónir punda. United hafði áhuga í sumar en Sancho vildi halda kyrru fyrir í Þýskalandi og þá var óvíst hvort hann hefði áhuga á að spila fyrir erkifjendurna í United.

Félagið er hins vegar sagt tilbúið að gera við hann risasamning svo að hann komi til félagsins en United þarf nauðsynlega á fleiri sóknarmönnum að halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert