Varaði Mourinho við

Romelu Lukaku í leik með Inter.
Romelu Lukaku í leik með Inter. AFP

Steve Walsh, sem var yfirmaður knattspyrnumála hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Everton er liðið seldi Romelu Lukaku til Manchester United, varaði José Mourinho, knattspyrnustjóra United við, áður en félagsskiptin gengu í gegn. 

Kallaði Walsh belgíska framherjann m.a stórt barn sem hagaði sér illa. Walsh, sem var yfirmaður knattspyrnumála hjá Leicester er liðið var óvænt Englandsmeistari árið 2016, vann með Mourinho hjá Chelsea á sínum tíma og þekkjast þeir vel. 

„Þegar José fékk Lukaku til United varaði ég hann við og sagði honum að fara varlega með Lukaku því hann er stórt barn. Hann sagðist ráða við Lukaku, en þú verður að fá hann á þitt band, sem er eitthvað sem Mourinho gekk illa með,“ sagði Walsh við The Athletic. 

„Það er sama saga með Paul Pogba. Þetta eru ekki uppáhalds leikmennirnir mínir því þeir hugsa meira um sig sjálfa en liðið. Þótt þeir séu góðir leikmenn þýðir það ekki að þú býrð til gott lið með þeim,“ bætti Walsh við. 

Mourinho, sem spilaði reglulega Lukaku, var rekinn frá United í desember, átján mánuðum eftir að hann fékk Lukaku til liðs við sig. Nokkrum mánuðum síðar var Lukaku seldur til Inter á Ítalíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert