Silva rekinn frá Everton

Marco Silva fékk reisupassann eftir tap gegn Liverpool í ensku …
Marco Silva fékk reisupassann eftir tap gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í gær. AFP

Enska knattspyrnufélagið Everton hefur rekið Portúgalann Marco Silva úr starfi en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins. Silva hefur stýrt liði Everton undanfarna átján mánuði en liðið situr í átjánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir fyrstu fimmtán umferðirnar.

Everton tapaði 5:2 gegn Liverpool á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í gær og var það kornið sem fyllti mælinn hjá forráðamönnum félagsins. Liðið hefur unnið fjóra leiki á tímabilinu, gert tvö jafntefli og tapað níu leikjum og situr í fallsæti.

„Everton staðfestir hér með að knattspyrnustjórinn Marco Silva hafi yfirgefið félagið. Félagið vill nota tækifærið og þakka honum fyrir hans störf undanfarna átján mánuði. Duncan Ferguson mun stýra liðinu tímabundið en félagið vonast til þess að kynna nýjan stjóra eins fljótt og auðið er,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

David Moyes, fyrrverandi stjóri liðsins, hefur verið sterklega orðaður við endurkomu á Goodison Park að undanförnu. Moyes stýrði Everton á árunum 2002—2013 við góðan orðstír en hætti með liðið til þess að taka við Manchester United. Gylfi Þór Sigurðsson er leikmaður Everton en Íslendingurinn hefur oft spilað betur en á þessari leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert