Guardiola vill sjá landa sinn taka við City

Pep Guardiola
Pep Guardiola AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir engar fyrirspurnir hafa borist til Mikel Arteta, aðstoðarmann sinn hjá Manchester City. Arteta hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá bæði Arsenal og Everton. 

„Hann ferðaðist með mér til Burnley í vikunni og hann verður aftur með mér á móti United. Hann verður hér út tímabilið held ég. Ég miða ekki byssu á höfuðið á starfsfólki eða leikmönnum og segi þeim hvað þeir eiga að gera. Við erum mannverur og við erum öll með okkar drauma.

Ég vona hins vegar að hann verði hérna sem lengst, en Mikel er með sitt eigið líf og ég ætla ekki að segja honum hvað hann á að gera. Tíminn sem við höfum unnið saman hefur verið æðislegur. Ég reyni að hjálpa honum og hann hefur hjálpað mér mikið,“ sagði Guardiola, sem er viss um að Arteta geti orðið eftirmaður sinn. 

„Alveg hiklaust. Það fer hins vegar eftir honum og félaginu. Það er eitthvað sem ég stjórna ekki,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert