Hefði viljað halda honum á Anfield

Harry Wilson hefur látið að sér kveða með Bournemouth í …
Harry Wilson hefur látið að sér kveða með Bournemouth í vetur. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, viðurkennir að hann hafi gert mistök með því að lána sóknartengiliðinn öfluga Harry Wilson til Bournemouth fyrir þetta keppnistímabil, að sögn breska blaðsins The Mirror.

Wilson var í láni hjá Derby í B-deildinni í fyrra og vakti þar mikla athygli fyrir markaskor sitt og sérlega glæsileg mörk með skotum utan vítateigs.

Wilson hefur átt góðu gengi að fagna með Bournemouth í úrvalsdeildinni og skoraði sex mörk fyrir liðið í fjórtán leikjum. Hann mátti ekki taka þátt í leiknum gegn Liverpool á laugardaginn en Klopp og hans menn unnu þar þægilegan sigur, 3:0.

Fyrir leikinn sagðist Klopp ánægður með að þurfa ekki að mæta Wilson. „Í hvert skipti sem dæmd er aukaspyrna er mikil hætta af honum. Hann skorar falleg mörk og það er gott fyrir hann. Harry er í heimsklassa hvað varðar skottækni,“ sagði Klopp.

The Mirror hefur eftir Klopp að hann hefði haldið Wilson í röðum Liverpool í vetur ef hann hefði fengið tækifæri til að breyta þeirri ákvörðun sinni að lána hann. Sérstaklega vegna leikjaálagsins sem nú er fram undan í kringum jól og áramót og meiðslanna hjá Fabinho sem er frá keppni fram í janúar eða febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert