Hefur aldrei á ferlinum byrjað svona illa

Pep Guardiola hughreystir Angelino og Raheem Sterling eftir tapið gegn …
Pep Guardiola hughreystir Angelino og Raheem Sterling eftir tapið gegn Manchester United á laugardaginn. AFP

Pep Guardiola knattspyrnustjóri Manchester City hefur aldrei á ferli sínum byrjað jafn illa á keppnistímabili og raunin er nú orðin hjá honum með enska meistaraliðið.

City er „aðeins“ með 32 stig eftir sextán leiki í ensku úrvalsdeildinni. Guardiola hefur frá 2008 stýrt liðum Barcelona, Bayern München og Manchester City og fram að þessu var hans versta byrjun hjá City haustið 2016 þegar liðið var með 33 stig að sextán umferðum loknum.

City var hins vegar komið með 46 stig á sama tíma ári síðar.

Takist Guardiola að snúa blaðinu við og standa uppi sem meistari með City í vor verður það í fyrsta skipti í sögu ensku knattspyrnunnar sem lið vinnur titilinn eftir að hafa verið fjórtán stigum á eftir toppliðinu.

Ummæli Spánverjans eftir tapið gegn Manchester United á heimavelli á laugardaginn hafa vakið nokkra athygli. Þar sagði hann m.a. að kannski yrði hans lið að sætta sig við þann veruleika að vera ekki samkeppnisfært gagnvart bestu liðum Evrópu - kannski sé raunin sú að City geti ekki veitt Liverpool, Manchester United, Barcelona, Real Madrid og Juventus keppni um þessar mundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert