Margir óvissuþættir fyrir heimsóknina á Old Trafford

Franski landsliðsbakvörðurinn Lucas Digne fór meiddur af velli gegn Chelsea.
Franski landsliðsbakvörðurinn Lucas Digne fór meiddur af velli gegn Chelsea. AFP

Duncan Ferguson, bráðabirgðastjóri Everton, segir að talsverð óvissa sé vegna meiðsla hjá sínu liði fyrir heimsóknina á Old Trafford á sunnudaginn en þar mæta Gylfi Þór Sigurðsson og félagar liði Manchester United í ensku úrvalsdeildinni.

Ferguson sagði á vef félagsins í dag að fimm leikmenn væru tæpir á þessari stundu. Seamus Coleman fyrirliði hefur verið frá í nokkrar vikur eftir að hafa fengið högg á rifbein en gæti spilað á sunnudaginn.

Vinstri bakvörðurinn Lucas Digne fór meiddur af velli undir lokin gegn Chelsea vegna nárameiðsla og Ferguson sagði að óvíst væri hvernig staðan yrði á honum á sunnudaginn.

Eins væru miðvörðurinn Yerri Mina, sóknarmaðurinn Theo Walcott og miðjumaðurinn Fabian Delph allir tæpir en Delph hefur ekki náð að spila undanfarnar sex vikur vegna tognunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert