Hvað gerir Gylfi á Old Trafford?

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar mæta Manchester United á Old …
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar mæta Manchester United á Old Trafford. AFP

Þrír leikir eru á dagskrá í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Gylfi Þór Sigurðsson og samherjar hans í Everton mæta Manchester United á Old Trafford og þá mætast Arsenal og Manchester City í stórleik. 

Gylfa hefur yfirleitt vegnað vel á Old Trafford og hefur hann skorað fjögur mörk á vellinum. Gylfi og félagar unnu langþráðan sigur á Chelsea í síðustu umferð, undir stjórn bráðabirgðastjórans Duncans Fergusons, eftir að Marco Silva var rekinn.

Þrátt fyrir það er Everton í 16. sæti, aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsæti. Manchester United er í sjötta sæti, en verður aðeins tveimur stigum frá fjórða sæti með sigri í dag.

Þá mætast Arsenal og Manchester City á Emirates-vellinum. Arsenal er í níunda sæti og þarf á sigri að halda til að eiga möguleika á að komast aftur í baráttuna um fjögur efstu sætin. Manchester City getur minnkað muninn á milli sín og Leicester í öðru sætinu niður í fjögur stig. 

Loks mætir José Mourinho með lærisveina sína í Tottenham til Wolverhampton, þar sem sjóðheitt lið Wolves bíður. Wolves tapaði síðast deildarleik 14. september og er í baráttunni um Evrópusæti. Wolves er í 7. sæti með 24 stig, einu stigi meira en Tottenham og í sætinu fyrir ofan. 

Leikir dagsins í enska boltanum: 
14:00 Manchester United - Everton (í beinni á Símanum sport)
14:00 Wolves - Tottenham 
16:30 Arsenal - Manchester City (í beinni á Símanum sport)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert