Arteta líklegastur hjá Arsenal?

Mikel Arteta, fyrir miðju, horfir á Manchester City sigra Arsenal …
Mikel Arteta, fyrir miðju, horfir á Manchester City sigra Arsenal 3:0 í London í gær. AFP

Mikel Arteta, fyrrverandi leikmaður Arsenal, er líklegastur til að taka við starfi knattspyrnustjóra félagsins sem er á lausu eftir að Unai Emery var rekinn á dögunum, samkvæmt heimildum Sky Sports.

Arteta er aðstoðarstjóri Manchester City en Sky Sports segir að Arsenal vilji fá mann sem þekki félagið og úrvalsdeildina og sé tilbúinn til að taka strax við liðinu. Arteta uppfylli öll skilyrðin og litlu hafi munað að hann hafi fengið starfið fyrir hálfu öðru ári þegar Emery var ráðinn.

Arteta er 37 ára gamall Spánverji sem lék í ellefu ár í ensku úrvalsdeildinni. Sex ár með Everton frá 2005 og með Arsenal frá 2011 þar sem hann lauk ferlinum árið 2016. Arteta, sem lék á miðjunni, spilaði 284 leiki í úrvalsdeildinni og skoraði í þeim 42 mörk. áður spilaði hann með Real Sociedad, Rangers í Skotlandi og París SG en ólst upp hjá Barcelona og spilaði með unglinga- og varaliðum félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert