Myndaðir á leið af leynifundi

Mikel Arteta.
Mikel Arteta. AFP

Forráðamenn Arsenal mættu heim til Mikel Arteta, aðstoðarstjóra enska knattspyrnuliðsins Manchester City, í gærkvöld og funduðu með honum fram á nótt, að sögn Sky Sports, sem hefur birt myndir af Arsenalmönnum að yfirgefa heimili Spánverjans.

Eins og kom fram hjá Sky Sports fyrr í morgun er Arteta nú talinn líklegastur til að taka við starfi knattspyrnustjóra Arsenal.

Vinai Venkatesham, framkvæmdastjóri Arsenal, og Huss Fahmy, lögfræðingur félagsins, sáust yfirgefa heimili Arteta í Manchester um klukkan 01.20 í nótt og sagt er að fundur þeirra hafi staðið yfir í tvo og hálfan tíma.

Sky Sports segir að Manchester City hafi áður en kom að þessum fundi óskað eftir skýringum frá Arteta um hans afstöðu í kjölfarið á vangaveltum síðustu daga og vikna um að hann muni taka við Arsenal.

Sky Sports kveðst hafa haft samband við bæði Arsenal og Manchester City vegna myndanna en hvorugt félagið hafi svarað því, enn sem komið er.

Arteta var á Emirates-leikvanginum, heimavelli Arsenal, í gær þar sem City vann öruggan sigur, 3:0, í viðureign liðanna í úrvalsdeildinni. Hann lék með liðinu í fimm ár, frá 2011 til 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert