Tilbúinn eftir fimm mánaða fjarveru

Aymeric Laporte.
Aymeric Laporte. AFP

Franski miðvörðurinn Aymeric Laporte spilar líklega sinn fyrsta leik með Manchester City í fimm mánuði um næstu helgi þegar lið hans mætir Fulham í 4. umferð ensku bikarkeppninnar.

Laporte meiddist á hné í ágúst og hefur verið frá keppni síðan og Pep Guardiola knattspyrnustjóri hefur staðfest að hann sé kominn á fulla ferð með liðinu. Ekki er þó reiknað með að hann spili gegn Sheffield United í úrvalsdeildinni annað kvöld.

„Aymeric mun ekki leysa öll okkar vandamál. Hann þarf sinn tíma til að komast í gang eftir fimm mánaða fjarveru,“ sagði Guardiola við BBC en City mátti sætta sig við 2:2 jafntefli gegn Crystal Palace á heimavelli á laugardaginn og hefur tapað mun fleiri stigum það sem af er tímabilinu en búist hafði verið við af ríkjandi Englandsmeisturum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert