Vilja ekki missa Shaqiri fyrr en í sumar

Xherdan Shaqiri fagnar marki fyrir Liverpool gegn Everton í vetur.
Xherdan Shaqiri fagnar marki fyrir Liverpool gegn Everton í vetur. AFP

Liverpool hefur hafnað fyrirspurnum frá Roma á Ítalíu og Sevilla frá Spáni sem vildu bæði fá sóknartengiliðinn svissneska Xherdan Shaqiri lánaðan til loka tímabilsins.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, vill ekki missa Shaqiri úr hópi sínum fyrir þá baráttu sem fram undan er í úrvalsdeildinni, Meistaradeild Evrópu og ensku bikarkeppninni, samkvæmt frétt BBC.

Sagt er að ekki komi til greina að selja Shaqiri fyrr en í sumar en þá myndi félagið vilja fá  fyrir hann 25,5 milljónir punda.

Shaqiri hefur aðeins komið við sögu í sex leikjum í úrvalsdeildinni og fjórum í öðrum mótum og skorað eitt mark. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert