Ekki það versta sem Ancelotti hefur upplifað - minntist 2005

Florian Lejeune sem jafnaði liggur á jörðinni eftir að hafa …
Florian Lejeune sem jafnaði liggur á jörðinni eftir að hafa skorað seinna mark sitt og Newcastle og dómarinn benti á miðju í kjölfarið eftir að hafa fengið skilaboð í úrið sitt um að boltinn hefði farið inn fyrir marklínuna. AFP

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton, vísaði til úrslitaleiks Meistaradeildar Evrópu árið 2005 eftir að lið hans missti niður 2:0 forskot gegn Newcastle í uppbótartíma í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöld.

Florian Lejeune skoraði þá tvö mörk og tryggði Newcastle stig sem ekkert benti til þess að liðið myndi ná á Goodison Park.

„Ég er mjög ánægður með hvernig liðið spilaði. Strákarnir eru virkilega daprir yfir því hvernig þetta fór en ég sagði þeim að ég hefði upplifað enn verra. Ég hef tapað úrslitaleik í Meistaradeildinni eftir að hafa komist í 3:0 þannig að svona lagað getur gerst,“ sagði Ancelotti eftir leikinn og þar átti hann við leik AC Milan og Liverpool í Istanbúl árið 2005 þegar hann stýrði ítalska liðinu sem var 3:0 yfir í hálfleik en tapaði í vítaspyrnukeppni eftir 3:3 jafntefli.

Steve Bruce knattspyrnustjóri Newcastle var að vonum ánægður með sína menn en viðurkenndi að um hálfgert rán hefði verið að ræða.

„Við verðskulduðum líklega ekkert úr þessum leik en við gáfumst aldrei upp. Þetta sýnir bara hvað getur gerst. Þetta var ótrúlegur leikur en frábær. Þetta sýnir bara að fólk á aldrei að fara af vellinum áður en flautað er til leiksloka!“ sagði Bruce.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert