Fyrsti fulltrúi landsins í úrvalsdeildinni

Mbwana Samatta, bláklæddur, í leik með Genk gegn Salzburg í …
Mbwana Samatta, bláklæddur, í leik með Genk gegn Salzburg í Meistaradeild Evrópu í vetur. AFP

Mikil ánægja ríkir í Afríkuríkinu Tansaníu þessa dagana eftir að landsliðsfyrirliðinn í fótbolta, Mbwana Samatta, var keyptur til Aston Villa frá Genk í Belgíu fyrir 10 milljónir punda.

Þar með verður hann fyrsti Tansaníubíuinn til að spila í ensku úrvalsdeildinni og þar í landi er beðið með mikilli eftirvæntingu eftir að hann byrji að spila með liðinu. Hann var ekki í hópnum gegn Watford í gærkvöld, enda nýkominn til félagsins, en gæti spilað fyrsta leikinn þegar Villa tekur á móti Leicester í seinni leik undanúrslita deildabikarsins í næstu viku.

„Knattspyrnusambandið telur að Samatta hafi hæfileikana til að halda áfram að blómstra og að nýjasta afrek hans muni halda áfram að opna dyrnar fyrir fleiri leikmönnum frá Tansaníu til að spila í Evrópu og annars staðar í heiminum,“ segir m.a. í yfirlýsingu frá Knattspyrnusambandi Tansaníu.

„Ríkisstjórnin og allir Tansaníubúar eru hæstánægð með hvert Samatta hefur náð á sínum knattspyrnuferli,“ sagði íþrótta- og menntamálaráðherra landsins, Harrison Mwakyembe.

Samatta er 27 ára gamall og skoraði 43 mörk í 101 leik með Genk í belgísku A-deildinni en hann varð belgískur meistari með liðinu á síðasta ári og skoraði þá 20 mörk í deildinni. Hann á að leysa framherjavandamál Aston Villa en Brasilíumaðurinn Wesley, eini framherji liðsins sem hefur skorað á tímabilinu, er úr leik næstu mánuðina vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert