Klopp fámáll um liðið í bikarleiknum gegn Shrewsbury

Takumi Minamino og Fabinho verða væntanlega í liði Liverpool á …
Takumi Minamino og Fabinho verða væntanlega í liði Liverpool á sunnudaginn en þeir mættust í Meistaradeildinni fyrr í vetur þegar Minamino lék með Salzburg. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, gaf lítið út um hvaða liði hann myndi stilla upp gegn Shrewsbury í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar á sunnudaginn þegar hann ræddi við fjölmiðla á fréttamannafundi nú eftir hádegið.

„Við stillum upp liði með ferska fætur. Við erum með nokkra leikmenn sem eru að koma úr meiðslum svo það væri rökrétt að nota þá, því þeir eru ansi góðir. Við viljum komast áfram og vitum að þetta er erfiður útivöllur," sagði Klopp og spurði síðan fréttamennina: „Ætlið þið svo að reyna að finna út byrjunarliðið út frá þessu? Já, það eiga margir leikmenn möguleika á að spila góðan leik, myndi ég halda, og meira er ekki um það að segja!" sagði Klopp.

Liverpool komst í gegnum þriðju umferð keppninnar með því að tefla fram nokkurs konar varaliði gegn Everton, þar sem liðið sigraði 1:0. Mótherjarnir á sunnudaginn, Shrewsbury, eru í 16. sæti C-deildarinnar og slógu B-deildarlið Bristol City út í þriðju umferð.

Miðað við orð Klopps er allavega afar líklegt að Joel Matip og Dejan Lovren verði miðverðir á sunnudaginn og Fabinho verði líka í liðinu. Takumi Minamino og Divock Origi, sem komu inn á sem varamenn gegn Wolves í gærkvöld, eru líklegir, ásamt Adrián markverði. Viðbúið er að yngri leikmenn eins og Curtis Jones, sem gerði glæsilegt sigurmark gegn Everton, Neco Williams og Harvey Elliott muni spila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert