Chelsea slapp með skrekkinn og fór áfram

Mason Mount í færi gegn Hull í kvöld.
Mason Mount í færi gegn Hull í kvöld. AFP

Chelsea er komið áfram í 16-liða úrslit enska bikarsins í fótbolta eftir 2:1-sigur á Hull úr B-deildinni á útivelli í kvöld. 

Michy Batshuayi kom Chelsea yfir strax á sjöttu mínútu. Belgíski framherinn kláraði þá vel eftir að boltinn datt til hans í kjölfarið á skoti Masons Mounts í varnarmann og var staðan í leikhléi 1:0.

Hún breyttist í 2:0 á 64. mínútu er varnarmaðurinn Fikayo Tomori skoraði með skalla eftir aukaspyrnu frá Ross Barkley. 

Hull gafst ekki upp því Kamil Grosicki minnkaði muninn á 78. mínútu. Pólverjinn skaut í varnarmann úr aukaspyrnu og þaðan fór boltinn í netið. Eftir markið var Hull líklegt til að jafna, en Chelsea hélt út og fagnaði sigri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert