Lætur Klopp og Liverpool heyra það

Jürgen Klopp verður ekki á hliðarlínunni þegar Liverpool mætir Shrewsbury …
Jürgen Klopp verður ekki á hliðarlínunni þegar Liverpool mætir Shrewsbury í öðrum leik liðanna í 4. umferð ensku bikarkeppninnar. AFP

Andy Holt, eigandi enska knattspyrnufélagsins Accrington Stanley, er allt annað en sáttur við Jürgen Klopp og Liverpool þessa dagana. Liverpool gerði 2:2-jafntefli gegn Shrewsbury í 4. umferð ensku bikarkeppninnar um helgina og því þurfa liðin að mætast á nýjan leik á Anfield, 4. eða 5. febrúar.

Vetrarfrí verður í ensku úrvalsdeildinni á þessum tíma og Klopp gaf það út í gær að enginn leikmaður aðalliðs Liverpool myndi taka þátt í leiknum. Þá verður Klopp sjálfur ekki á hliðarlínunni en leikmenn U23 ára liðs félagsins munu því spila leikinn, líkt og í átta liða úrslitum deildabikarsins í desember þegar Liverpool heimsótti Aston Villa.

„Þetta er til skammar,“ lét Holt hafa eftir sér en Accrington Stanley leikur í ensku C-deildinni. Ég mun aldrei skilja af hverju toppliðin og bestu leikmenn úrvalsdeildarinnar standi ekki þéttar við bakið á kollegum sínum í neðri deildunum. Þetta er ekkert annað en sjálfselska að ætla að mæta með eitthvert varalið í leikinn gegn Shrewsbury hjá Klopp og Liverpool.“

„Enska bikarkeppninin er besta tækifærið fyrir liðin í neðri deildum Englands til þess að afla tekna og þetta er algjör vanvirðing. Jürgen er sjálfum sér og Liverpool til skammar. Vonandi grípur enska knattspyrnusambandið inn í því svona hlutir drepa bikarkeppnina og ef það gerist þá eiga neðri deildarfélögin sér enga von,“ bætti Holt við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert