Jákvæðar fréttir af Mané

Sadio Mané fór meiddur af velli gegn Wolves þann 23. …
Sadio Mané fór meiddur af velli gegn Wolves þann 23. janúar síðastliðinn. AFP

Sadio Mané, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, er með smávægilega tognun aftan í læri en þetta staðfesti Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, á blaðamannafundi í dag. Mané verður því fjarri góðu gamni þegar Liverpool mætir West Ham á morgun og Southampton á laugardaginn í ensku úrvalsdeildinni en hann ætti að vera klár í slaginn eftir það.

„Mané verður ekki klár í slaginn gegn West Ham og Southampton en hann ætti að vera orðinn góður í næstu viku,“ sagði þýski stjórinn á fundinum í dag. „Hann ætti að vera byrjaður að æfa af fullum krafti í næstu viku sem eru frábærar fréttir fyrir okkur. Þetta var smávægileg tognun aftan í læri og hann missir því af þremur leikjum.“

„Þegar allt kemur til alls þá myndi ég segja að við höfum verið heppnir. Þetta leit ekkert sérstaklega vel út til að byrja með enda aldrei gott þegar leikmenn þurfa að fara tilneyddir af velli. Við vorum heppnir því þetta var ekki alvarlegt og hann verður klár í slaginn strax eftir vetrarfrí,“ bætti Klopp við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert