Martial með mikilvægt mark á útivelli - jafnt í fyrsta leik Ragnars

Leikmenn Manchester United fagna Anthony Martial eftir að hann jafnaði …
Leikmenn Manchester United fagna Anthony Martial eftir að hann jafnaði metin í kvöld. AFP

Club Brugge og Manchester United skildu jöfn, 1:1, í fyrri leik liðanna í 32ja liða úrslitum Evrópudeildar UEFA í Brugge í Belgíu í kvöld.

Brugge náði forystunni á 15. mínútu með marki frá Emmanuel Dennis eftir langa sendingu frá markverðinum Simon Mignolet, sem áður varði mark Liverpool, 1:0.

Anthony Martial jafnaði fyrir Manchester United á 36. mínútu, 1:1, og þar við sat. Liðin mætast aftur á Old Trafford næsta fimmtudagskvöld.

Ragnar Sigurðsson, lengst til hægri, fagnar jöfnunarmarki FCK gegn Celtic …
Ragnar Sigurðsson, lengst til hægri, fagnar jöfnunarmarki FCK gegn Celtic í kvöld. AFP

Celtic komst yfir gegn Ragnari Sigurðssyni og félögum í FC København á Parken í Kaupmannahöfn með marki Odsonne Edouard á 14. mínútu og staðan var 0:1 í hálfleik. Dame N'Doye jafnaði metin fyrir FCK á 52. mínútu, 1:1, og það urðu lokatölurnar. Jens Stage hefði getað tryggt FCK sigur en hann skaut í stöng úr vítaspyrnu á 79. mínútu.

Ragnar lék í 86 mínútur í vörn FCK en þetta var hans fyrsti mótsleikur eftir endurkomuna til danska félagsins.

Daichi Kamada skoraði þrennu fyrir Eintracht Frankfurt sem sigraði Salzburg frá Austurríki, 4:1.

Christian Eriksen og Romelu Lukaku tryggðu Inter Mílanó 2:0 útisigur gegn Ludogorets Razgrad í Búlgaríu, 2:0, með mörkum á síðustu 20 mínútunum.

Getafe frá Spáni lagði Ajax að velli, 2:0, með mörkum fré Deyverson og Kenedy.

Shakhtar Donetsk vann Benfica, 2:1, í Úkraínu. Alan Patrick og Viktor Kovalenko skoruðu fyrir Shakhtar en Pizzi gerði mark Benfica úr vítaspyrnu.

Sporting Lissabon sigraði Istanbúl Basaksehir 3:1 í Portúgal. Sebastian Coates, Andraz Sporar og Luciano Dario Vietto komu Sporting í 3:0 en Edin Visca gaf Tyrkjunum smávon með marki seint í leiknum.

CFR Cluj og Sevilla skildu jöfn í Rúmeníu, 1:1. Ciprian Ioan Deac kom Cluj yfir en Youssef En-Nesyri jafnaði fyrir spænska liðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert