Getur United barist um titilinn?

Ole Gunnar Solskjær þarf fjármagn næsta sumar til þess að …
Ole Gunnar Solskjær þarf fjármagn næsta sumar til þess að berjast á toppi deildarinnar að sögn Robbie Savage. AFP

Robbie Savage, fyrrverandi knattspyrnumaður í ensku úrvalsdeildinni, telur að Manchester United geti barist við Manchester City og Liverpool um enska meistaratitilinn á næstu leiktíð ef félagið er tilbúið að opna veskið næsta sumar. Savage er uppalinn hjá United og var í leikmannahópi liðsins tímabilið 1993-94 án þess þó að spila leik fyrir aðalliðið.

Hann starfar í dag sem sparkspekingur fyrir hina ýmsu miðla. „Persónulega tel ég að Manchester United sé aðeins þremur nýjum leikmönnum frá því að vera að berjast á toppi deildarinnar,“ sagði Savage í samtali við Mirror en leikmennirnir sem um ræðir eru þeir Kalidou Koulibaly, Jack Grealish og Jadon Sancho.

„Það á eflaust einhverjum eftir að finnast þetta galin ummæli, sérstaklega ef við horfum á gengi liðsins á tímabilinu, en United hefur nú þegar tapað fyrir Crystal Palace, Bournemouth, Newcastle, West Ham, Watford og Burnley. Þrátt fyrir þessi slæmu úrslit hefur liðið einnig sýnt mjög lipra takta á tímabilinu.“

„Þeir unnu Manchester City sem dæmi og eru enn sem komið er eina liðið sem hefur tekið stig af Liverpool. Ef Solskjær fær 250 milljónir punda næsta sumar til þess að eyða í leikmenn og kaupir Koulibaly, Grealish og Sancho tel ég að United sé með lið sem geti hæglega barist um sigur í ensku úrvalsdeildinni,“ bætti Savage við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert