VAR mun eyðileggja fótboltann

Myndbandsdómgæslan var í stóru hlutverki í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Myndbandsdómgæslan var í stóru hlutverki í ensku úrvalsdeildinni í gær. AFP

Peter Schmeichel, fyrrverandi markmaður Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, er langt frá því að vera hrifinn af myndbandsdómgæslunni, VAR, sem tekin var upp í deildinni í upphafi leiktíðar. Enn og aftur fékk VAR á sig gagnrýni í gær þegar Giovani lo Celso, miðjumaður Tottenham, fékk ekki að líta rauða spjaldið fyrir afar ljóta tæklingu í leik gegn Chelsea á Stamford Bridge en Schmeichel vill meina að VAR muni á endanum eyðileggja fótboltann, ef tæknin verði ekki tekin úr leiknum fljótlega.

„Ég vil að þetta virki og ég vil hjálpa dómurunum að gera þetta betra en ákvarðanirnar sem voru teknar í dag voru einfaldlega rangar. Það er erfitt að vera dómari í efstu deild Englands og VAR var fengið til þess að hjálpa dómurunum. Mér finnst ömurlegt að vera að kalla eftir rauðu spjaldi á annan leikmann en það sáu það allir á vellinum en hann var ekki langt frá því að fótbrjóta César Azpilicueta,“ sagði Frank Lampard, stjóri Chelsea í gær.

Þá vann Manchester City 1:0-sigur gegn Leicester City en það var Gabriel Jesus sem skoraði sigurmark leiksins í síðari hálfleik. City fékk vítaspyrnu í seinni hálfleik þegar boltinn fór í hönd Dennis Praet. Mjög svipað atvik átti sér stað í fyrri hálfleik þegar leikmaður City handlék knöttinn innan teigs en þá var ekkert dæmt. „Við vorum vonsviknir að fá ekki neitt því þetta var augljóst víti,“ sagði Brendan Rodgers, stjóri Leicester, svekktur í leikslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert