Skrifaði undir fimm ára samning

Hakim Ziyech mun ganga til liðs við Chelsea næsta sumar.
Hakim Ziyech mun ganga til liðs við Chelsea næsta sumar. AFP

Hakim Ziyech mun ganga til liðs við enska knattspyrnufélagið Chelsea næsta sumar en þetta staðfesti hans núverandi félag Ajax fyrr í þessum mánuði. Ziyech mun klára tímabilið með Ajax en Chelsea greindi frá því á heimasíðu sinni í gær að leikmaðurinn hefði skrifað undir fimm ára samning við enska félagið. 

Þessi 26 ára gamli marokkóski landsliðsmaður hefur byrjað nítján leiki í hollensku úrvalsdeildinni á tímabilinu þar sem hann hefur skorað sex mörk og lagt upp tólf mörk fyrir liðsfélaga sína. Chelsea þarf að borga Ajax 40 milljónir punda fyrir leikmanninn sem kom til Ajax frá Twente í ágúst 2016.

Ajax borgaði ekki nema ellefu milljónir evra fyrir leikmanninn en hann hefur spilað 162 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 48 mörk og lagt upp önnur 82. Þá á Ziyech 32 landsleiki að baki fyrir Marokkó þar sem hann hefur skorað fjórtán mörk en hann spilaði sinn fyrsta landsleik árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert